Skilaboð
  • EU e-Privacy Directive

    This website uses cookies to manage authentication, navigation, and other functions. By using our website, you agree that we can place these types of cookies on your device.

    View e-Privacy Directive Documents

Um verkefnið

Þann 29. janúar 2004 undirrituðu Ferðamálaráð Íslands, Ungmennafélag Íslands og Landmælingar Íslands með sér samstarfssamning er lítur að gerð og rekstri gagnagrunns um gönguleiðir á Íslandi. Gönguleiðir þessar eru skilgreindar í þessu verkefni sem leiðir er tekur a.m.k. tvær klst. að ganga og geta þær verið merktar sem ómerktar. Markmið verkefnisins er að stuðla enn  frekar að uppbyggingu gönguleiða á Íslandi og aðgengi að þeim, sem og hvetja fólk til að ganga um landið og kynnast því á þennan heilsusamlega hátt.
Mikil vakning hefur átt sér stað hér á landi undanfarin ár gagnvart útivist af þessu tagi, bæði stuttum heilsubótargönguferðum og skipulögðum nokkurra daga ferðum og hafa ferðafélög og áhugahópar um gönguleiðir víðs vegar um landið unnið mjög gott starf síðustu misserin t.d. við gerð göngukorta, vefsíðna og merkingu gönguleiða.
Vinna og upplýsingaöflun þessa verkefnis hófst vorið 2003 og var leitað til ferðamálafulltrúa, sveitarfélaga, ferðafélaga og annarra áhugamanna um gönguferðir hér á landi. Upplýsingar um 500 lengri leiðir og tæp 300 styttri leiðir eru í gagnagrunninum og birtast þær hér á þessari heimasíðu ásamt öðrum upplýsingum er tengjast slíkum ferðalögum. Upplýsingar sem þessar geta seint orðið tæmandi en þeim er ætlað að benda á ýmsa áhugaverða möguleika til útivistar bæði á fáförnum sem fjölförnum stöðum.
Verkefni þetta er framhald af verkefni sem Ungmennafélag Íslands fór af stað með árið 2002, með styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu, þess efnis að fá fólk til að ganga reglulega sér til heilsubótar sem og til að fá ferðafólk til að staldra við á ferðum sínum um landið og fara í stuttar gönguferðir. Afrakstur þess átaks er handbókin Göngum um Ísland sem hefur að geyma lýsingar á um 300 stuttum merktum gönguleiðum víðsvegar um landið. Bókin liggur frammi á upplýsingamiðstöðvum og bensínstöðvum um land allt.

Vinsamlegast athugið að leiðarlýsingar í gagnagrunninum eru ekki tæmandi. Fólki er bent á hvar nánari upplýsingar er að finna í “Heimildir og / eða nánari upplýsingar” og hvetjum við fólk til að útvega sér göngukort af viðkomandi svæði og afla sér góðra upplýsinga áður en lagt er af stað.

Það er von aðstandenda verkefnisins að upplýsingarnar muni nýtast sem flestum er hyggja á ferðalög og útivist í íslenskri náttúru og efli um leið enn frekar þessa tegund afþreyingar í íslenskri ferðaþjónustu.
Öllum þeim er veittu upplýsingar og / eða komu að þessu verkefni með öðrum hætti eru færðar bestu þakkir fyrir.


Gangi ykkur vel!

Vefurinn Ganga.is formlega opnaður

 

Vefurinn Ganga.is var formlega opnaður 23. júní 2005 af Sigríði Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra. Í stuttri ræðu sem hún hélt sagði hún m.a. að verkefnið Göngum um Ísland væri þjóðþrifaráð og ganga af öllu tagi væri öllum holl. Björn Bjarndal Jónsson, formaður UMFÍ, sagði í sinni ræðu m.a. að Göngum um Ísland væri eitt besta heppnaða verkefni sem UMFÍ hefði ráðist í.

Göngum um Ísland er landsverkefni UMFÍ sem sett var á laggirnar sumarið 2002. Verkefnið er unnið í samstarfi við ungmennafélög um land allt, Ferðamálaráð og Landmælinga Íslands.

 Ísland hefur að geyma mikinn fjölda gönguleiða og hafa nú verið valdar útvaldar gönguleiðir í hverju byggðarlagi. Leiðabók með tæplega 300 gönguleiðum hafa fengist gefins um land allt og í gær kom út ný leiðabók sem prentuð hefur verið í 50 þúsund eintökum. Olís er einn aðal styrktaraðili bókarinnar og verður henni dreift á alla sölustaði fyrirtækisins þar sem hún fæst ókeypis.

Í Leiðabókinni Göngum um Ísland er lögð áhersla á stuttar, stikaðar og aðgengilegar gönguleiðir.

Fjölskyldan á fjallið er einn liður í verkefninu. Settir hafa verið upp póstkassar með gestabókum á yfir 20 fjöllum víðsvegar um landið en öll þessi fjöll eiga það sameiginlegt að vera tiltölulega létt að ganga á. Markmiðið er að fá fjölskyldur í létta fjallgönguferð og stuðla þannig að aukinni samveru, útivist og um leið líkamsrækt innan fjölskyldunnar.

 Á heimasíðunni Ganga.is er að finna fjölmargar gönguleiðir á Íslandi ásamt áhugaverðum fróðleik fyrir göngu- og útivistarfólk.

Share |
IsafoldLOGOFjallakofinn