Skilaboð
  • EU e-Privacy Directive

    This website uses cookies to manage authentication, navigation, and other functions. By using our website, you agree that we can place these types of cookies on your device.

    View e-Privacy Directive Documents

Fréttir
Ferð á Krísuvíkurberg með Reykjanesfólkvangi

Ferðafélag Íslands efnir til ferðar á Krýsuvíkurberg, sunnudaginn 26. apríl í samstarfi við Reykjanesfólkvang. Farið verður í rútu frá Mörkinni 6 kl. 10.30 og komið síðan við hjá verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði, rétt fyrir kl. 11.

Sunnan Krýsuvíkurkirkju verður ekinn slóði niður að vestanverðu berginu og hugsanlega verður að ganga einhvern spöl ef slóðinn er blautur.

Krýsuvíkurberg er langstærsta fuglabjarg á Reykjanesskaganum og talið að þar verpi yfir 57 þúsund sjófuglapör. Bergið er um 7 km langt og mesta hæð um 70 m. Á miðju berginu er Krýsuvíkurbergsviti og þangað er göngunni heitið.

Forvitnileg eldstöð er í berginu vestanverðu og þar er Ræningjastígur, þar sem Tyrkir stigu á land og drápu matseljuna í selinu við Selöldu. Skammt frá er svo Heiðnaberg.

Hér er margt að sjá, hvort sem áhuginn tengist fuglalífi, jarðfræði eða fornum mannvistarleifum. Öldum saman nytjuðu bændur í Krýsuvík bergið og fluttu marga hestburði af eggjum og fugli í bú sín.

Komið verður aftur í Mörkina eigi síðar en kl. 19.


Verð kr. 4.000 / 6.0000
Fjölskyldugjald kr. 6.000

Skráning á skrifstofu FÍ fyrir föstudag.

 

 
Örgöngur í Grafarholti

Miðvikudagana 22. apríl, 29. apríl, 6.maí,13. maí og 20.maí verða farnar gönguferðir um nágrenni Grafarholts.  Þetta verða stuttar ferðir sem taka  eina og hálfa til tvær klukkustundir.

 Í áætlun Ferðafélagsins kallast þær örgöngur.   Í fyrstu göngunni verður gengið frá hitaveitugeymunum á Holtsskyggni - eftir stíg yfir golfvöllinn - upp á Hádegisholt - um Lyngdalsklauf  - um Skálina - niður brekkuna með Nesjavallaleiðslunni. 

  Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir.

 
Menningar- og sögutengd ganga um Gerðavelli
Menningar- og sögutengd ganga í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins verður laugardaginn 18. apríl og hefst kl. 13:00. Gangan hefst við Stóru-Bót með vígslu á sjötta söguskiltinu sem sett er upp í Grindavík.  (Rétt hjá stóra fjarskiptamastrinu  við þéttbýli Grindavíkur)

Gengið verður með ströndinni að Virkinu og Engelskulág þar sem 15 Englendingar voru drepnir í Grindavíkurstríðinu árið 1532. Síðan verður gengið yfir Rásina, ef fært er, í átt að gerði Junkara en þeir voru þýskir menn sem voru hér á 14. og 16. öld og ýmsar sögur fara af. Á Gerðavöllum má jafnframt sjá ýmsar minjar um búskap, stekk, rétt o.fl.

Ýmislegt verður skoðað sem  fyrir augu ber á leiðinni. Ómar Smári Ármannsson og Sigrún Franklín munu sjá um fræðsluna. Gangan tekur 1-2 klukkutíma með fræðslustoppum. Gengið er í grasi og sandi að mestu og því er gott að vera í góðum skóm. Allir á eigin ábyrgð.

Gangan er liður í viðburða- og menningardagskrá Saltfisksetursins og Grindavíkurbæjar ´09 sjá nánar á www.grindavik.is

 
Skálar FÍ í Landmannalaugum og Þórsmörk opnir um páskana

Skálar FÍ í Landmannalaugum og Þórsmörk verða opnir um páskana og skálaverðir að störfum í báðum skálum.  Skálarnir verða því heitir og notalegir og heitt kaffi og kakó á könnunni hjá skálavörðum. 

Boðið er upp á gönguferðir í næsta nágrenni skálanna og því tilvalið að skella sér í ferð til fjalla og upplifa íslenska náttúrufegurð eins og hún gerist best.

 
Tunglganga á Esjuna á kvöldi Skírdags

Ferðafélag Íslands stendur fyrir tungl göngu á Esjuna að kvöldi Skírdags 9. apríl kl. 21.00.  Allir þátttakendur fá gefins páskaegg af bestu gerð og auk þess verður dregið úr hópi þátttakenda og hljóta vinningshafar sérstaka páskagjöf frá Ferðafélaginu.

Tunglgangan hefst frá bílastæðinu við Mógilsá.  Athugið fullt tungl er á fimmtudag og má gera ráð fyrir stjörnubjörtum himni.

Fararstjóri í gönguferðinni er Þórður Marelsson.

Allir velkomnir - þátttaka er ókeypis.

 
<< Fyrsta < Fyrri 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 Næsta > Síðasta >>

Síða 24 af 31
Share |
IsafoldLOGOFjallakofinn