Skilaboð
  • EU e-Privacy Directive

    This website uses cookies to manage authentication, navigation, and other functions. By using our website, you agree that we can place these types of cookies on your device.

    View e-Privacy Directive Documents

Fréttir
Kirkjuganga í Grindavík

Í tilefni af aldarafmæli gömlu Grindavíkurkirkju verður kirkjuganga laugardaginn 26. september. Mæting er kl. 11 við gömlu Grindavíkurkirkju þaðan verður ekið með einkabílum að Staðarkirkjugarði. Gengin verður kirkjugatan frá Stað að gömlu Grindavíkurkirkju í Járngerðarstaðahverfi.

Gengið verður í grasi og hrauni. Gangan tekur um 2 - 3 tíma með fræðslustoppum. Kirkjan var vígð þennan dag árið 1909. Hún var afhelguð 1982 og síðan hefur verið m.a. barnavistun og ýmiss félagsstarfsemi í húsinu.

Söguskilti verður sett upp við kirkjuna. Myndir verða af gömlum kirkjumunum og heitt á könnunni í tilefni dagsins.

Allir eru velkomnir. Gangan er liður í viðburða- og menningardagskrá Saltfisksetursins og Grindavíkurbæjar.

 
Síðasta ferð starfsársins hjá Ferðafélagi Akureyrar

Á laugardaginn kemur, 26. september, verður síðasta ferð starfsársins farin hjá Ferðafélagi Akureyrar. Gengið verður frá bílastæðinu efst á Víkurskarði um Gæsadal út Dalsmynni að Laufási þar sem gangan endar.

Fararstjórn á vegum ferðanefndar FFA og kostar ekkert í ferðina. Brottför frá FFA kl. 9.00

Skrifstofan verður opin föstudaginn 25. sept. kl. 18.00 - 19.00

 
Af stað á Reykjanesið - síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins

AF STAÐ á Reykjanesið

Tólfta og síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins 2009

Mæting er við Duushús í Reykjanesbæ sunnudaginn 6. september kl 11. Gengið verður með berginu út fyrir Helguvík í átt að Leiru og þaðan upp að gömlu þjóðleiðinni Sandgerðisvegi. Leiðinni verður síðan fylgt í Grófina þangað sem flestar þjóðleiðirnar lágu á Suðurnesjum um aldir.

Svæðið býr yfir ótal mörgum sögum og minjum. Þátttökugjald er kr. 1000. Frítt fyrir börn undir 12 ára aldri. Vegalengdin er um 6 km og tekur 3 – 4 tíma með stoppum. Gott er að vera í góðum gönguskóm og með nesti. Gengið á mel og í grasi. Sjá upplýsingar um Ljósanótt og aðra þjónustu á www.reykjanesbaer.is

 

Gangan er tólfta og síðasta menningar- og sögutengda gönguferð sumarsins í gönguverkefninu AF STAÐ á Reykjanesið. Boðið hefur verið upp á þátttökuseðil þar sem göngufólk hefur safnað stimplum fyrir hverja ferð. Nú er komið að því að draga út þrjá heppna vinningshafa.

Þátttakendur eru beðnir um að muna efti að taka þátttökuseðil með í gönguna. Allir eru velkomnir. Ferðamálasamtök Suðurnesja styrkja ferðina. Samtökin hafa staðið fyrir því að láta stika gamlar þjóðleiðir á Reykjanesskaga og gefa út myndkort af þjóðleiðum. Jafnframt hafa þau gefið út gönguleiðaleiðabæklinga af Sandgerðisvegi og Garðstíg. Bæklinga og göngukort er hægt að kaupa hjá upplýsingamiðstöð ferðamála Krossmóa 4.

 


 
70 manns í fjölskyldugöngu HSK á Hvolsfjall

70  manns tóku þátt í  fjölskyldugöngu HSK á Hvolsfjall við Hvolsvöll í góðu veðri. Göngustjóri var Lárus Bragason sagnfræðingur frá Miðhúsum, en hann er uppalinn og búsettur í brekkum fjallsins. Hann er greinilega mjög fróður og var gaman að heyra hann segja sögur af svæðinu, allt frá landnámsöld.

Eins og öðrum fjölskyldugöngum HSK var farið með póstkassa og gestabók upp á fjallið. Í byrjun október verður farið og náð í gestabókina og fá heppnir göngugarpar, sem verða dregnir út, óvæntan glaðning frá HSK og UMFÍ.

Eins og undanfarin ár tók Guðni Guðmundsson á Þverlæk þátt í göngunni og hann ritaði eftirfarandi vísu í gestabókina.

Gjarnan um sveitir til gamans skunda.
Á göngu víkur streitu-skollinn.
Á bungu leita yndisstunda.
Engann þreytir Hvollinn.

 Jón M. Ívarsson söguritari HSK var meðal þeirra sem tóku þátt og hann setti saman eftirfarandi vísu á leiðinni.

Ekki var þetta erfið ganga
á götunni reyndi ég að hanga.
Eftir göngu ekki langa
upp ég komst á stall.
Leit ég yfir lága velli.
(Lárus sagði frá í hvelli)
Hógvært fólk er Hvols- á velli
að kalla þetta fjall!

Eftir gönguna bauð Sögusetrið á Hvolsvelli göngufólki upp á veitingar og þátttakendum gafst auk þess tækifæri á að skoða setrið.  HSK þakkar göngustjóra og Sögusetrinu fyrir þeirra framlag.  Vonast er til að göngufólk taki þátt í þessu skemmtilega verkefni og gangi á Hvolsfjall og Mosfell í sumar.

 
Jónsmessuganga á fjallið Þorbjörn

Laugardagskvöldið 20. júní býður Bláa Lónið og Grindavíkurbær upp á hina árlegu Jónsmessugöngu á fjallið Þorbjörn. Gangan hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár en hér er um að ræða skemmtilega afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Lagt verður af stað gangandi frá sundlaug Grindavíkur kl. 20:30 og er áætlað að ferðin taki um þrjár klukkustundir. Hópstjóri verður með í för. Allir eru á eigin ábyrgð.

Eyjólfur Kristjánsson mun skemmta með söng og spili við varðeld á fjallinu og einnig í Bláa lóninu þar sem gangan endar.  Jafnframt verður dregið úr réttum lausnum  í söguratleik Grindavíkur ´09 sjá ratleikskort  bls. 12 - 13 í dagskrá Sjóarans síkáta á www.grindavik.is

Vinsamlegast athugið að gangan er 20. júní kl. 20:30 ekki 21. júní kl. 20 eins og misritaðist í viðburða- og menningardagskrá Saltfisksetursins og Grindavíkur ´09.

Enginn þátttökukostnaður er í gönguna en þátttakendur greiða aðgang í Bláa lónið, sjá upplýsingar um verð og þjónustu á  www.bluelagoon.is

Kynnisferðir verða með sætaferðir til Grindavíkur frá BSÍ klukkan 19:30 og SBK frá Reykjanesbæ kl. 20:00. Sætaferðir frá Bláa lóninu verða til Grindavíkur kl. 00:30 og Reykjanesbæjar og Reykjavíkur kl. 01:00.

 
<< Fyrsta < Fyrri 21 22 23 24 25 26 27 28 29 30 Næsta > Síðasta >>

Síða 22 af 31
Share |
IsafoldLOGOFjallakofinn